Hitler hefði kunnað að meta starfsemi sæðisbanka
19.9.2011 | 14:31
Með tilkomu sæðisbanka og frelsi kvenna til að velja sér nafnlausa sæðisgjafa eftir hæð, háralit, augnlit, menntun, kannski greindarvísitölu og fleira þá er hægt að stjórna "betur" en áður hverjir fá að lifa og hverjir ekki eins og stefna Hitlers gekk út á.
Ég er svo sem ekki alveg á móti sæðisbönkum og samþykki að í mörgum tilfellum er það réttlætanlegt og gott mál. En það eru margar siðferðislegar spurningar varðandi þessa banka og því miður þá eru margir siðferðisbrestir lögfestir í þessu sambandi.
Það að kona geti valið dökkhærðan sæðisgjafa í stað rauðhærðs eða ljóshærðs tel ég svo sem allt í lagi, en þegar börn getin með gjafasæði eru svipt uppruna sínum með þeim hætti að leyna þeim hver föðurinn er, og þá hver föðurfjölskyldan er, tel ég mjög gróft mannréttindabrot.
Sæðisbanki hafnar rauðhærðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mannréttindabrot? Gegn sæðisfrumu? Gegn barni sem fæðist eftir frjóvgun? Nei, engan veginn.
Þegar par vill láta líta svo út að ófrjósemi sé ekki vandamál, þá munu þau velja sæði frá gjafa, sem líkist föðurnum. Barnið elst upp í eðlilegu fjölskyldulífi í þeirri trú að það sé barn beggja hjóna, enda líkist það þeim.
Síðan þegar barnið er orðið stálpað, getur tvennt gerzt:
1. Barnið fær aldrei að vita um uppruna sinn og lifir sínu lífi án þess að hugsa um það, og þetta veldur því engum áhyggjum.
2. Barnið fær að vita um uppruna sinn, en kemst að því að maðurinn sem það elst upp hjá er meiri faðir en einhver ókunnugur, sem lítur á barnið sem einskis virði og honum óviðkomandi, enda bara einhverjar sæðisfrumur sem hann fékk greitt fyrir.
Svo getur líka gerzt, að verðandi foreldrum (þar sem eiginmaðurinn er ófrjór) sé alveg sama hvernig gjafinn lítur út. Barnið stálpast og tekur eftir því að hann er svo ólíkur formlegum föður sínum, að þeir gætu allt eins tilheyrt mismunandi tegundum. Barnið fer síðan að leita að líffræðilegum föður sínum og kemst að því að raunverulegur faðir er einhver ókunnugur, sem lítur á barnið sem minna en einskis virði og honum algjörlega óviðkomandi, enda bara einhverjar sæðisfrumur sem hann fékk greitt fyrir.
Heimir, segðu þetta aftur með mannréttindabrot, því að þetta með að gefa foreldrum með ófjósemisvandamál 100% val milli þess að gefa barni eðlilegt uppeldi í staðinn fyrir ævilöng vonsvik er einmitt ekki mannréttindabrot, heldur þvert á móti.
Eða varstu að hugsa um mannréttindi þeirra sem eru að markaðsetja sjálfa sig í formi framseljanlegra sæðisfruma? Því að þá erum við ekki einu sinni á sömu síðu. Mundu, að sæðisgjöf er sjálfselskuverk og krefst engrar fórnfýsi. Ég styð rétt hjóna sem vilja eignast börn til að eignast börn með öllum tiltækum ráðum, sem eru lögleg og siðleg, enda er móður- og föðureðlið ein sterkustu frumeðliseinkenni allra lifandi vera, sérstaklega mannkynsins. Sumir eru ekki sammála, en þeir hafa veikari málstað en ég.
Og í guðanna bænum ekki blanda Adolf Hitler inn í þetta, því að annars deyr umræðan strax. Kynþáttahyggja nazistanna, eins fráhrindandi og hún var gekk nefnilega út á það, að yfirvöld réðu hverjir mættu eignast börn saman og hverjir ekki (þetta var líka stefna íslenzkra yfirvalda á fyrri hluta síðustu aldar, því miður). Það er alls ekki tilfellið í svona máum. Þetta eru tveir mismunandi málaflokkar, sem ekkert eiga skylt með hvor öðrum.
Tökum dæmi: Hvít, ljóshærð kona og svartur maður giftast og vilja eignast barn/börn saman. En hann er ófrjór, svo að þau velja tæknifrjóvgun, en sæðisgjafnn er japanskur. Hvaða andsk.. mannréttindi eru fólgin í því? Móðirin þekkir hvort eð er ekki japanann (sem er algjörlega ábyrgðarlaus hvort eð er), en elskar manninn sinn. Þess vegna er eðlilegt að þau velji sæðisgjafa sem er blökkumaður. Og ekki sæði frá rauðhærðum eða Asíubúum.
Og þannig mætti lengi telja, dæmin eru óteljandi. Ég sé bara ekkert athugavert við þetta fyrirkomulag. Þessir rauðhærðu (og aðrir í lágri eftirspurn) verða bara að leita sér annarra tekjumöguleika en sæðisgjöf.
Vendetta, 20.9.2011 kl. 00:45
Það er hægt að færa mörg rök fyrir rétti fullorðins fólks til að gera það sem það vill. En það má ekki gleyma því að lítil sæðisfruma getur orðið að einstaklingi, manneskju sem hefur mannréttindi.
Það eru mannréttindi að fá að þekkja uppruna sinn. Hvort sem uppruninn er slæmur eða góður þá eru þetta grunn mannréttindi. Hártoganir með þessi mannréttindi eins og að það geti aðrir reynst barni vel en líffræðilegir foreldrar breyta engu með þessi grunn mannréttindi.
Auðvitað geta líffræðilegir foreldrar verið tómir óþverrar og aðrir uppalendur algerir englar. Það breytir þó ekki þeim grunn mannréttindum hvers einstaklings að fá að þekkja uppruna sinn.
Börn sem eru ættleidd innanlands eða utanlands hafa þennan rétt. Afhverju ekki einstaklingar sem getnir eru með gjafasæði?
Með þínum rökum mætti halda að foreldrar sem ættleiða börn séu ekki eins góð og þeir foreldrar sem geta börn með gjafasæði, eða þá að foreldrar sem gefa sæði séu verri einstaklingar en foreldrar sem gefa börn til ættleiðingar. Þessi rök þín standast ekki.
Það eru grunn mannréttindi að þekkja uppruna sinn og allt blaður um réttindi annarra til að svipta einstaklinga þessum mannréttindum ber vott um siðrof.
Það er hægt að skrifa langan pistil um það hvers vegna þessi réttur til að þekkja uppruna sinn er mikilvægur og það er hægt að skrifa langan pistil um einstaklinga sem leita uppruna síns. Ég hef ekki tíma í það núna en það er hellingur af upplýsingum um þetta efni á netinu.
Ég bendi einnig á að Umboðsmaður barna mótmælti nafnlausu gjafasæði fyrir mörgum árum síðan og ítrekaði það einnig fyrir nýlega lagasetningu um nafnlaust gjafasæði.
Ég bendi einnig á að Bretar gerðu sömu vitleysu og Íslendingar fyrir nokkrum árum síðan þegar þeir leyfðu nafnlaust gjafasæði en þeir sáu svo að sér og í dag er nafnlaust gjafasæði bannað í Bretlandi.
Þegar ég tala um mannréttindabrot við nafnlaust gjafasæði þá var ég EKKI að tala um brot gegn sæðisgjafa eins og þú komst inná. Ég geri ráð fyrir að sæðisgjafar séu lögráða og gefi sitt sæði af fúsum vilja og afsali sér þessum rétti. Þeir eru því að brjóta mannréttindi á verðandi einstakling en ekki á sjálfum sér.
Það sem ég sagði varðandi Hitler hefur ekkert að gera með þessi mannréttindi. Þá var ég að vísa frekar í efni fréttarinnar að sæðisbankar eru að hætta að taka við sæði frá rauðhærðum vegna lítillar eftirspurnar. Hitler vildi ákveðinn háralit og hann lét útbúa græju með hárlitum til að greina háralit á fólki. Út frá greiningu háralits var ákveðið hvort manneskjan fengi að lifa eða yrði drepinn.
Það að sæðisbankar séu að hætta að taka við sæði rauðhærðra vegna skorts á eftirspurn, þá erum við að breyta því sem myndi gerast með eðlilegum hætti. Ég veit það og ég vona að þú áttir þig á því að rauðhærðir eignast börn alveg eins og ljóshærðir og dökkhærðir. Þegar einstaklingur velur sér maka til að eignast börn með þá er háralitur ekki eins mikið (issue) eins og þegar sæðisgjafi er valinn. Rauðhærðir geta verið töfrandi einstaklingar alveg eins og annað fólk og rauðhærðir maka sig út um allt eins og annað fólk.
Ef rauðhærðum er úthýst úr sæðisbönkum og ef engin eftirspurn er eftir sæði frá rauðhærðum, þá er að einhverju leiti verið að framfylgja stefnu Hitlers. Litróf hárs barna getin með sæðisgjöf er einsleitari en það sem gerist í náttúrunni þegar rómantíkin ræður för.
Þú þarft ekki að vera sammála mér í þessu, en ég gef ekkert fyrir rök um vonda sæðisgjafa og kærleiksríka sæðisþega í umræðunni um grunn rétt hvers einstaklings til að þekkja uppruna sinn. Sæðisgjafar og sæðisþegar geta allt saman verið ágætisfólk. Ég skil alveg að menn gleymi þessum rétti barnsins í allri umræðunni um rétt foreldra, en ég vill minna á barnið.
Mig langar þó að segja eitt að lokum, og það er varðandi leit að uppruna sínum.
Barn sem getið er með gjafasæði og þekkir ekki sinn uppruna. Ég tel næsta víst að þetta barn vill þekkja uppruna sinn en hvað getur það gert. Á Íslandi má henda öllum gögnum um sæðisgjafa þannig að barnið getur ekki leitað uppruna síns en þó svo það gæti leitað uppruna síns, þá er margt annað sem getur stoppað barnið í þeirri leit.
Sæðisþegarnir voru kannski bestu foreldrar sem hugsast getur og mjög nánir barninu. Ef barnið vill leita uppruna síns þá gæti það sært þessa frábæru kærleiksríku foreldra sem hafa gert allt fyrir barnið í 18 ár. Þetta er engin smá klemma fyrir 18 ára einstaklings að vita ekki uppruna sinn og þora ekki að leita hans af ótta við að særa kærleiksríka uppalendur sína.
Fullkominn kærleikur hlýtur þó að felast í því að sætta sig við sannleikann í málinu. Þeir sem fengu gjafasæðið til þess að verða foreldrar eru ekki síður foreldrar barnsins þó svo barnið viti sannleikann og þekki uppruna sinn. Ég tel ekki miklar líkur á því að barn snúi baki við þeim foreldrum sem þau ólust upp hjá, þó þau þekki uppruna sinn og vilji jafnvel kynnast einhverjum ættingjum þar líka.
Ástin er ekki takmörkuð auðlind. Þó barnið fái að elska fleiri aðila en þá sem ólu það upp, þá minnkar það ekki ástina til uppalenda sinna.
Heimir Hilmarsson, 20.9.2011 kl. 11:28
Heimir, ég held að þú hafir ekki alveg skilið allt rétt sem ég skrifaði. Ég hef í fyrsta lagi ekkert á móti rauðhærðu fólki eða neinum yfirleitt. Ég fyrirlít rasista og rasisma (mismunun á grundvelli útlits eða hörundslitar) og mér hugnast alls ekki það útlendingahatur sem er landlægt á Íslandi.
Í öðru lagi fjallaði fréttin ekki um að útiloka sæði rauðhærðra, heldur ekki taka við fleiri því að það væri meira en nóg af sæðisfrumum rauðhærðra í bankanum miðað við eftirspurn. Og ekki stendur til að henda "rauðhærðu" sæði úr bankanum, það væri hneyksli. Og ég er viss um að sæðisfrumur með öðrum erfðaeiginleikum en rauðu hári sem lítil eftirspurn sé eftir séu einnig afþakkaðar, þar eð nóg er til í bankanum. T.d. er ekki mikil eftirspurn eftir sæðisfrumum frá karlmönnum með arfgengt heyrnarleysi í 5 kynslóðir (ég nefni þetta dæmi að gefnu tilefni). Þótt það sé kannski óetískt að líkja sæðisfrumum við vörur, þá myndi enginn heildsali halda áfram að flytja inn vöru lítilli eftirspurn eftir að lagerinn væri orðinn fullur.
Sama með sæðisfrumur rauðhærðra, sem álitnir eru afkomendur neanderthalsmanna (Íra, annarra Kelta, Íslendinga), að þeir eru alls mjög lítil prósenta af öllum jarðarbúum og eðlilegt að eftirspurnin sé minni. Ég er enn hlynntur því, að glasabarn fái að líkjast fósturföður sínum eins mikið og unnt er, alveg óháð því hvort barnið fari síðar að leita að líffræðilegum föður eða ekki.
Í grundvallaratriðum er ég sammála þér í því að er réttur barna að leita uppruna síns, en það var ekki aðalinntak fréttarinnar og allt önnur umræða, sem er mjög flókin. Og ég blanda ekki saman tilvikum (þótt þú gerir það) þar sem tæknifrjóvgað barn fæðist inn í fjölskyldu og tilvikum, þar sem barn er ættleitt. Þetta er tvennt gjörsamlega ólíkt, því að í fyrra tilfellinu hefur faðirinn aldrei hitt barnið og er alveg sama. Þannig að nafnleynd er ekki vandamál, nema þegar koma upp erfðafræðileg vandamál (genetískir fæðingagallar, arfgengir sjúkdómar osfrv.), en ég geri ráð fyrir því að sjúkrasaga sæðisgjafa sé athuguð vel áður en sæðisgjöf fer fram.
Vendetta, 20.9.2011 kl. 17:33
Að öðru leyti er ég hjartanlega sammála því sem er þema hjá þér: Réttur barna til að alst upp hjá báðum foreldrum jafnt.
Vendetta, 20.9.2011 kl. 17:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.