Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Þráinn situr þá umboðslaus í þingflokki VG

Stundum finnst mér það fyndið en oftar sorglegt hvað stjórnmálamenn geta verið innilega ósamkvæmir sjálfum sér. Sennilega á þó VG metið í því þessum leik.

Hvernig geta flokksmenn VG tekið við Þránni Bertels sem sagði sig úr þingflokki Borgararhreyfingarinnar og sagt svo að þeir sem segi sig úr þingflokki VG sitji umboðslausir á þingi.

Vinnubrögð VG virðast fyrst og fremst fara eftir geðsveiflum þeirra, skoðanir og ákvarðanir byggðar eingöngu á tilfinningum sem stundum hafa ekkert að gera með raunveruleikann.

Tilfinningar eru góðar og að mínu mati nauðsynlegar til þess að taka réttar ákvarðanir, en rökhugsun verður að vera til staðar og ákvarðanir verða að vera byggðar fyrst og fremst á vitrænum rökum sem byggja á staðreyndum en ekki tilfinningum.

Nú eru VG með dómsmálaráðuneytið. Þeir hafa gefið út yfirlýsingu um að þeir vilji að fleiri verði dæmdir. Algerlega burt séð frá sekt eða sakleysi. VG virðist ekki hafa áhuga á því að vita um sekt eða sakleysi manna. Þeir vilja bara fleiri dæmda. Yfirlýsing byggð á tilfinningu einni saman og hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Yfirlýsingin í sjálfu sér vantraustsyfirlýsing á íslenska domstóla, saksóknara, dómkvadda matsmenn og dómara.

Ísland er eina landið í Evrópu sem ekki treystir dómstólum til þess að dæma í sameiginlega forsjá. Síðasti dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lagði áherslu á að gefa dómurum þessa heimild enda ekki fordæmi um annað í öðrum löndum. Ragna Árnadóttir, vinsælasti dómsmálaráðherra Íslands, hélt inni þessari áherslu Björns Bjarnasonar.

Nú erum við með Dómsmálaráðherra VG og hans mat byggt á tilfinningunni einni saman virðist vera að ekki sé hægt að treysta íslenskum dómstólum. Dómaravaldið verði að vera í höndum "móður" því dómari og dómkvaddir matsmenn geti ekki með nokkru móti metið bestu hagsmuni barns.

Hvernig getum við setið upp með ráðherra sem vantreystir dómstólum svo algjörlega að hann telji dómsvaldið betur sett í höndum annars deilu aðilans.


mbl.is Atli situr ekki í umboði kjósenda VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru konur að misnota kerfið?

Á árunum 2008 til 2010 fækkaði karlastörfum um 10.000 en kvennastörfum fækkaði um 1.300 á sama tíma.

Hávær krafa er nú um að kvennastörfum verði sérstaklega bjargað og mikið talað um hvað atvinnuleysi bitnar mikið á konum.

Hér eru nokkrar tölur frá Hagstofu Ísland:

Fækkun starfa 2008 til 2010: (hagstofa.is)
Karlastörf:  10.000
Kvennastörf:  1.300

Brottfluttir erlendis umfram aðfluttir 2008 til 2010: (hagstofa.is)
Karlar: 5.394
Konur:    431

Vinnuafl á Íslandi 2008 til 2010: (hagstofa.is)
Körlum fækkaði um: 5.400
Konum fjölgaði um: 2.200

Hvað geta þessar tölur sagt okkur?

Vinnuafl er samanlagður fjöldi þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá og þeirra sem eru í vinnu.

Þegar körlum í landinu fækkar um 5.394 þá fækkar karlmönnum á vinnumarkaði um sömu tölu sem gæti sagt okkur að þeir karlar sem búa á Íslandi eru á vinnumarkaði óháð atvinnustigi.
Þegar konum í landinu fækkar um 431 þá fjölgar konum á vinnumarkaði um 2.200 eða 2.631 fleiri en búast mætti við.

Atvinnulausum körlum fjölgar um 4.600 á þessum árum, 5.400 flytja úr landi = 10.000 eða sömu tölu og fækkun karlastarfa.
Atvinnulausum konum fjölgar um 3.600 á þessum árum, 400 flytja úr landi = 4.000 eða 2.700 meira en kvennastörfum fækkaði um.

Vel er hægt að álykta út frá þessum tölum að 2.700 konur sem nú eru á atvinnuleysisskrá hafi ekki viljað vera á vinnumarkaði þegar nóga vinnu var að fá. Kvennarannsóknir sýna einnig fram á að konur eru lengur atvinnulausar en karlar í kjölfar efnahagshrunsins en það getur bent til þess að margar konur á atvinnuleysisskrá séu alls ekki að leita sér að vinnu. Atvinnuleysi kvenna gæti því að stórum hluta til verið uppgert atvinnuleysi til viðbótar við raunverulegt atvinnuleysi.

Allar tölur hér að ofan eru teknar af vef Hagstofu Íslands www.hagstofa.is

Það getur einnig verið umhugsunarefni í þessu samhengi hvort kynbundinn munur á örorku skýrist með sama hætti en af 15.000 öryrkjum á Íslandi eru 9.000 konur á móti 6.000 körlum. Konur lifa lengur en karlar. Karlar vinna hættulegri vinnu en konur en konur eru 50% líklegri til þess að vera öryrki. Eða hvað? Eru kannski jafn miklar líkur á því að konur og karlar verði öryrkjar. Eru kannski 6.000 karlar og 6.000 konur öryrkjar í alvöru og 3.000 konur að misnota sér örorku? (fjöldi öryrkja eftir kyni finnst á tr.is, tölur eru námundaðar)

Hvernig sem þetta er þá er alveg þess virði að skoða þessi mál betur.

Ég vona að enginn taki því sem ég segi hér sem alhæfingu um að allar konur allir karlar eitthvað, því þannig er það ekki.

Fjöldi kvenna og karla eru í alvörunni atvinnulaus og það þarf að gera eitthvað í því fyrir bæði kynin. En ef það er einhver fótur fyrir því að fjöldi kvenna sé að misnota sér kerfið þá er það að eyðileggja fyrir öllum öðrum, konum og körlum.


mbl.is Kynjuð hagstjórn orðin tóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningarnir eru í Bretlandi

Segjum NEI við IceSave.

Hvar búa skúrkarnir sem bera ábyrgðina? Í Bretlandi.

Hvar eru aflandsreikningarnir sem notaðir voru til að fela peningana? Í Bretlandi. (aflandseyjum Bretlands)

Hvar eru eignir skúrkanna? Í Bretlandi.

Hvar borga skúrkarnir skattana sína? Í Bretlandi.

Hvar fjárfestu skúrkarnir? Í Bretlandi.

Hverjir eru í bestri stöðu til þess að ná peningunum beint af skúrkunum? Bretar.

Hverjir vernda skúrkana og peningana sem þeir stálu undan? Eru það ekki Bretar?

===

Helstu rökin sem ég hef heyrt fyrir því að við eigum að borga IceSave er að málið sé leiðinlegt og að því ljúki með því að samþykkja ríkisábyrgð á upphæð sem getur verið einhverstaðar á milli 30 og 900 milljarðar. Jafnvel meira ef krónan hrynur.

===

Ef ég er beðinn um að ábyrgjast lán fyrir fjölskyldumeðlim, þá þarf ég að gera upp við mig hvort ég geti borgað þá upphæð sem ég gengst í ábyrgð fyrir. Það er grundvallaratriði.

Ef ég ræð við þá upphæð þá get ég velt fyrir mér öðrum mikilvægum þáttum eins og hvort ég treysti lánþeganum til þess að standa í skilum og hvort ég yfir höfuð vilji ganga í ábyrgð fyrir viðkomandi.

===

IceSave er ekki skilgreind upphæð en óhætt er að gera ráð fyrir því að upphæðin geti verið á bilinu 30 til 900 milljarðar.

Þegar ég met hvort ég geti ábyrgst þessa upphæð, eða minn hluta upphæðarinnar, þá þarf ég að gera ráð fyrir því öll upphæðin lendi á ábyrgðinni.

900 milljarðar eru 3.000.000,kr pr hvern einstakling. Það gerir 15.000.000,kr. fyrir mína fjölskyldu.

15 milljónir eru stærri upphæð en ég myndi ábyrgjast fyrir mína nánustu.

Landsbankinn, fyrrverandi eigendur og núverandi eigendur hans standa mér mun fjær þannig að það er útilokað að ég vilji ábyrgjast þessa upphæð fyrir þá.

Þess utan þá treysti ég ekki því að peningarnir komi frá þrotabúi Landsbankans ef ríkisábyrgð verður samþykkt.

Það eru mun meiri líkur á því að þrotabú Landsbankans greiði IceSave skuldina ef engin ríkisábyrgð er á IceSave.

 

Ég verð að segja að lokum að ég hef samúð með Hollendingum, þar sem ég veit ekki til þess að þeir hafi hagnast svo mikið á hruni Íslands. Bretar ættu að sjá sóma sinn í því að borga Hollenskum innistæðueigendum tap þeirra og vinna svo að því að ná peningunum af skúrkunum sem búsettir eru í Bretlandi.


mbl.is Mjótt á mununum um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léleg ástæða til að skuldsetja þjóðina

Það eru eflaust til margar lélagar ástæður fyrir því að láta íslenskan almenning ábyrgjast skuldir Landsbankans. En ástæða borgarstjóra er sú lélegasta sem ég hef heyrt. Því miður þá er hann ekki sá eini sem er þessarar skoðunar. Ég er nokkuð viss um að ef þjóðaratkvæðagreiðslan endar þannig að þjóðin tekur á sig sök fjárglæframannanna með því að ábyrgjast það sem þeir stálu undan, þá er það vegna þessarar lélegu ástæðu.

Borgarstjóri segir: „Ég ætla að greiða atkvæði með því, ekki vegna þess að ég skilji það eða ég telji að það sé rétt, heldur er ég einfaldlega orðinn frekar leiður á málinu. Ég ætla að kjósa það í burt,"

Með því að segja Já við IceSave er ekki verið að kjósa málið burt. Það að skrifa upp á óútfylltan tékka sem greitt er af um ókomna framtíð er langt frá því að "kjósa það burt".

Með því að segja Já við Icesave er verið að kjósa mikla óvissu yfir okkur, börnin okkar og barnabörn um ókomna framtíð.

Klárum frekar að gera upp Landsbankann og borgum allt sem kemur út úr honum. Látum IceSave málið bíða þangað til.

Það er um margt annað að hugsa og nógur tími til þess að hugsa um IceSave þegar ljóst er orðið hversu mikið eftir stendur.

Ef við segjum Nei við IceSave, þá er nokkuð ljóst að IceSave er komið út af borðinu í bili. Með því að segja Já er IceSave komið til þess að vera.


mbl.is Bölsýnn borgarstjóri í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband