Burt með verðtrygginguna og lægri vexti

Er ekki öllum orðið það ljóst hve verðtryggingin getur verið glæpsamleg. Fjármagnseigendum líst illa á niðurfærslu skulda en er ekki óðaverðbólga óeðlileg uppfærsla skulda? Það er enginn að biðja um að skuldir verði lækkaðar umfram óeðlilega hækkun er það? Það er með ólíkindum að umræðan skuli snúast um að lækka skuldir í stað þess sem réttara er að það er verið að biðja um leiðréttingu vegna "glæpsamlegra" hækkana skulda.

Hvar annarsstaðar á jörðinni yrði það samþykkt að skuldir hækkuðu með sama hætti og hér hefur gerst? Hvar annarstaðar á jörðinni yrðu samþykktir þeir okurvextir sem hafa verið við lýði hér á landi?

Lífeyrissjóðirnir tapa ef lánþegar njóta sanngirni. Nauðsynlegt er að níðast á lánþegum til að lífeyrissjóðirnir lifi. Allir tæplega 100 lífeyrissjóðirnir þurfa að lifa. Hvað kostar að halda úti 100 lífeyrissjóðum fyrir 300.000 manna þjóð?

Ríkisstjórnin ætti að setja fram frumvarp um að hámarksfjöldi lífeyrissjóða væri til dæmis fimm og allir ættu rétt á að vera í þeim lífeyrissjóði sem þeir veldu sér og ríkisstarfsmenn, alþingismenn og allir hefðu sama rétt til lífeyris og væru í sömu lífeyrissjóðum með sömu ríkisábyrgð. Tel það nokkuð víst að öllum íslendingum sé það fullljóst í dag að þetta lífeyrissjoðakerfi sem við búum við í dag er bara rugl.


mbl.is Líst illa á almenna niðurfærslu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heimir.....

Það sem þú ert að segja er eftirfarandi:

Gerum ráð fyrir að brauð kosti 100 krónur í dag. Þú lánar mér 100 krónur gegn 10% vöxtum í eitt ár (óverðtryggðum). Ég borga þér 110 krónur eftir ár en þá hefur brauðið hækkað í 115 krónur. Ef þetta eru lánaviðskipti sem þú myndir bjóða upp á þá er ég til í að fá lánaðar stórar fjárhæðir frá þér. Dæmið gengur ekki upp. Lánið væri gjöf og gott betur.

Ef verðtryggingin er lögð af þá bætist svokallað verðbólguálag á alla vexti. Fyrir þá sem vilja vita meira um það má googla "inflation premium". Afnám verðtryggingar mun ekki þýða að til boða verði að fá lán með sömu vaxtaprósentu og áður (en án verðtryggingar). Vextir sem áður voru með endurskoðunarákvæði á segjum 5 ára fresti munu verða fljótandi eða t.d. með 3 mánaða, 6 mánaða eða árs endurskoðunarákvæði. Þetta mun þýða að vextir munu breytast í takt við þá verðbólgu sem vænst er á hverjum tíma. Sökum óvæntrar verðbólgu sem gæti sprottið upp þá mun síðan bætast verðbólguálag ofan á vextina. Álagið er greiðsla til lánardrottna fyrir áhættuna sem þeir þurfa að bera vegna óvæntrar verðbólgu. Þetta yrði sennilega í hærra lagi hér á landi þar sem Ísland er lítið hagkerfi sem sveiflast talsvert. Ekki er ég þó að mæla með verðtryggingunni heldur eingöngu að benda á þær staðreyndir sem bæði liggja fyrir og lesa má úr reynslu annarra landa.

Stærsti ókostur verðtryggingar er klárlega hvernig hún heftir miðlunarferli peningastefnunnar. Ef verðtryggingar nyti ekki við þá væri auðveldara fyrir Seðlabankann að hafa áhrif á einkaneyslu og öll hagstjórn yrði þar með að öllu líkindum sársaukaminni.

Það sem hér hefur komið fram endurspeglar ekki skoðanir heldur staðreyndir. Þeir sem ekki trúa geta lesið sér til um þessa hluti í nánast hvaða basic fjármála- eða hagfræðibók sem er.

Ólafur Garðar (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 01:58

2 Smámynd: Heimir Hilmarsson

Sæll Óli,

Þú ert duglegur í hagfræði.

Hvað eru mörg lönd með verðtryggingu? Og hvað eru mörg lönd sem ekki nota verðtryggingu? Það má velvera að Ísland með sína matador peninga geti ekki lifað án verðtryggingar, en þá eigum við bara að nota stærri mynt. Íslendingar eiga að geta fengið sömu vexti og nágrannaþjóðirnar.

Eru það ekki þeir sem græða á verðtryggingunni ásamt þeim sem græða á kvótabraski sem borga fyrir íslenskar hagfræðirannsóknir? 

Íslenskir hagfræðingar hafa fundið það út að mun hagstæðara er að selja veiðiheimildir fram og til baka heldur en nokkurn tíman að veiða fiskinn. Íslensk útgerð mun þá væntanlega fyrst fara að dafna ef bátunum yrði lagt fyrir fullt og fast og braskið yrði eitt stundað.

Kvótabraskið er upphafið á þeim peningaleik sem kom Íslandi á þann stað sem við erum á í dag. Gjaldþrota þjóð. Kvótabraskið er stutt af hagfræðingum sem fundu það út í Excel að hagstæðara væri að selja kvóta en að veiða fisk.

Það kemur mér því ekkert á óvart þó það sé hagfræðileg staðreynd að verðtryggingin sé lífsnauðsynleg fyrir íslenska þjóð. Íslendingar eiga að trúa því að hér eiga vextir að vera svívirðilega háir því annað er ekki sanngjarnt.

Íslendingurinn hefur lengi verið auðplataður sem lýsir kannski best í því að allt fram á síðustu ár þá borðuðu Íslendingar nánast eingöngu ýsu og fussuðu við þorsk. Þorskurinn var svo góð útflutningsvara og því var landanum talið trú um að þetta væri óæti. Ýsan hins vegar var ekki hæf til útflutnings og því borðuð hér heima og landinn trúði því að það var vegna þess að ýsan væri besti fiskurinn. Það var ekki fyrr en rétt fyrir 1990 sem íslendingar fóru að flytja ýsu út með flugi, og ætli það hafi verið um svipað leiti sem landinn fór að borða fleiri tegundir fisks.

Svo er það blessuð verðbólgan. Er hún náttúrulögmál? Af hverju komast aðrar þjóðir af án verðbólgu? Af hverju gerir ESB þessar ströngu kröfur á lágt verðbólgustig til að komast inn í sambandið? Ef hverju nær Ísland ekki þessu viðmiði nema í dýpstu kreppu frá stofnun lýðveldisins?

Má ekki leiða líkum að því að verðtryggingin auki líkur á verðbólgu?

Heimir Hilmarsson, 14.10.2010 kl. 03:26

3 identicon

Vissulega er það rétt að verðtrygging eykur að einhverju leyti líkur á verðbólgu, hvati bankanna til að halda verðbólgustigi innan skikkanlegra marka er ekki mikill. Þó má ekki gleyma því að bankarnir hafa líka verðtryggðar skuldir og ef mig minnir rétt þá las ég frétt um daginn sem sagði að tveir af stóru bönkunum væru með neikvæða stöðu sem kæmi að þessu, verðtryggðar skuldir hefðu hækkað meira en verðtryggðar eignir.

Verðtryggingin er ekki vandamálið, heldur verðbólgan, hagstjórn landsins... alveg síðan það varð sjálfstætt hefur verið til skammar og ekkert hugsað um stöðugleika þegar kemur að ríkisstjórnarákvörðunum. Það er vandamálið.

Svo er ekki rétt sem oft er haldið fram að ísland er eina landið þar sem verðtrygging er til staðar, gæti vel trúað að þetta sé eina landið þar sem hún er til staðar í svo miklu magni en hún er notuð um allan heim, og lönd byrjað að horfa hýrara auga að henni. Verðtrygging ótrúlegt en satt er stöðugri heldur en breytanlegir vextir.

Ef hérna hefði ekki verið verðtrygging heldur aðeins breytanlegir vextir væru ekki svona mörg heimili næstum því gjaldþrota, þau væru gjaldþrota.

En kannski er það svoldið íslenskt líka, í allmörgum löndum er boðið upp á 100% lán fyrir fasteigna eða bílakaupum, ekkert vandamál. Það er boðið upp á það í smátíma á Íslandi og allt fer til fjandans. Er það ekki líka þannig að íslendingar þurfa að læra að stjórna sínum peningamálum sjálfir? Ekki bara kenna öllum öðrum um.

Ingvar Linnet (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 07:49

4 Smámynd: Heimir Hilmarsson

Ein aðalástæðan fyrir því að Íslendingar tóku svo mikið af lánum í erlendri mynt var að þar voru lægri vextir.

Eruð þið að segja að Íslendingar hafi búið við sömu vexti á íslenskum lánum og allir aðrir? Voru Íslendingar bara að kenna öðrum um þegar þeir tóku lán í erlendri mynt til að forðast okurvexti á íslenskum lánum? Hækkaði höfuðstóll EUR lána þegar rauðvín hækkaði i Brussel? Þetta fór allt framhjá mér.

Heimir Hilmarsson, 14.10.2010 kl. 08:52

5 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Burt með verðtrygginguna og lægri vexti? Ég vil hafa möguleika á því að taka verðtryggð lán og ég vil alls alls ekki í burtu með lága vexti.

Afhverju vill fólk afnema verðtrygginguna? Erum við betur sett með færri valkosti í lánamálum? Allir bankar bjóða upp á óverðtryggð lán sem hægt er að taka. Þeir bjóða jafnvel afskriftir ef verðtryggð lán séu skuldbreytt í óverðtryggð.

Ég hvet því þá sem að vilja afnema verðtrygginguna að gera það upp á sínar eigin spýtur.

Ólafur Guðmundsson, 14.10.2010 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband