Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Fæðingarorlof feðra

Það hefur talsvert verið í umræðunni hvort gefa eigi einstæðum mæðrum möguleika á því að taka þá þrjá mánuði fæðingarorlofs sem nú eru bundnir feðrum. Þegar við veltum upp þessari spurningu ber okkur að hugleiða það, hverjar eru forsendur fæðingarorlofs í núverandi mynd? Það kemur fram í fæðingarorlofslögunum frá árinu 2000 að megin tilgangur laganna er tvíþættur: „Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður. Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf".

Í dag er fæðingarorlofi þrískipt, þ.e. þrír mánuðir eru sérstaklega ætlaðir móður, þrír mánuðir eru sérstaklega ætlaðir föður og þrír mánuðir eru valfrjálsir þannig að foreldrar ráða því sjálfir hvort þeirra tekur orlofið eða þau geta skipt því á milli sín.

Það að einstæðar mæður geti tekið þessa þrjá mánuði föðursins til viðbótar við þá sex mánuði sem þær nú geta tekið er varla til þess fallið að uppfylla þessi tvö meginmarkmið fæðingarorlofslaganna.

Í skýrslu Ingólfs V. Gíslasonar „Fæðingar- og foreldraorlof á Íslandi: Þróun eftir lagasetninguna árið 2000" kemur fram að samkvæmt norrænni úttekt frá árinu 1998 verði eftirfarandi skilyrði að vera fyrir hendi til að feður nýti sér fæðingarorlof: 1. Sjálfstæður réttur, einnig varðandi greiðslur. 2. Tími bundinn föður sem er óframseljanlegur til móður. 3. Sveigjanleiki í orlofstöku. 4. Góðir möguleikar til töku orlofs eftir að barnið hefur náð sex mánaða aldri. 5. Háar greiðslur í orlofi.

Það er ánægjulegt að segja frá því að nýting feðra á fæðingarorlofi fór langt fram úr væntingum og hér á landi nýta feður sér að jafnaði alla sína þrjá mánuði og jafnvel aðeins rúmlega það.

Hins vegar er það áhyggjuefni hversu lágt hlutfall feðra sem ekki hafa lögheimili barns síns nýti sér sinn rétt á töku fæðingarorlofs. Þessir feður eiga það algerlega undir móður barnsins komið hvort þeir fái að taka orlof.

Árið 2004 fæddust 16,4% barna utan sambúðar og aðeins 12% þeirra nýttu sér fæðingarorlof samkvæmt skýrslu I.V.G. Þetta þýðir það að 88% feðra sem eignuðust barn utan sambúðar árið 2004 nýttu sér ekki þetta þriggja mánaða fæðingarorlof.

Það hlýtur að vekja upp spurningar þegar tölur sýna fram á það að fæðingarorlof feðra í sambúð er að fullu nýtt, en fæðingarorlof feðra sem ekki eru í sambúð er aðeins nýtt í 12% tilfella. Hafa feður í sambúð svona mikið meiri áhuga á börnum sínum en feður sem ekki búa með móðurinni? Eða getur verið að ástæðan sé einfaldlega sú að þeir hafi ekki kost á því að taka orlof? Feður þurfa leyfi móður til orlofstöku fari þeir ekki með forsjá barns og þegar barn fæðist utan sambúðar, þá fer móðirin ein með forsjá þess.

Nú krefst Félag einstæðra foreldra þess að fæðingarorlof feðra verði færanlegt til móður sem fer ein með forsjá barns og færa fram sem rök í því máli að einstæðir foreldrar fái aðeins sex mánuði á meðan sambúðarfólk fær níu mánuði í fæðingarorlof. Krafan um lengra fæðingarorlof er vel skiljanleg því kröfur um meiri réttindi verða alltaf til staðar og bara af því góða. En komist það til framkvæmda að sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs verði framseljanlegur til mæðra með þessu móti, þá er það stórt skref aftur til fortíðar. Sá árangur sem náðst hefur bæði á meiri þátttöku feðra í umönnun barna og ekki síður á jöfnun á stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði yrði færður aftur til fyrra horfs. Grunnforsendum fæðingarorlofslaganna frá árinu 2000 væri kastað á glæ.

Í lokin vil ég hvetja þá feður sem ekki fara með forsjá barna sinna að láta í sér heyra og krefjast fæðingarorlofs. Það kemur börnunum betur og það jafnar stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

 


mbl.is Karlar axli ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er brotið á börnum sem koma við tæknifrjóvgun?

Svo ég tali nú aðeins um tæknifrjóvgun í þessu bloggi um fæðingarorlof, þá eru nú fleiri þættir en fæðingarorlof sem þarf að huga að þar.

Þegar einstæð kona fer í tæknifrjóvgun og eignast föðurlaust barn, þá fær barnið:

1. Helmingi minni fjölskyldu, þ.e. engin föðurfjölskylda.

2. Helmingi minni lífslíkur foreldris, þ.e. tveir foreldrar hafa meiri lífslíkur en eitt foreldri.

3. Helmingi færri foreldra til að leita til í uppvexti sínum.

4. Enga vitneskju um hvort tilvonandi elskendur eru systkini þeirra eða náskyld. t.d. nýlegt dæmi um að tvíburar urðu ástfangin af hvort öðru án þess að vita af skyldleika sínum. (Kannski ættu þeir sem lögleiddu þessa tæknifrjóvgun að láta afnema lög um sifjaspjöll þar sem útilokað er að henda reiður á slíkt eftir lögin um tæknifrjóvgun)

5. Vitneskja um óþekkt ættartengsl, þ.e. börnin vita að þau eiga fjölskyldu sem þau munu aldrei geta haft samband við. (Fjöldi uppkominna barna leita uppruna síns um allan heim)

6. Sex mánuðir í stað níu í fæðingarorlof.

Kvennréttindahreyfingar hafa ákveðið að gera fæðingarorlofsmálið í þessu dæmi að aðalmálinu og því eina sem verði að takast á við.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband