Dómaraheimild í forsjármálum

Í 1.mgr. 3.gr. Barnasáttmálans er skýrt tekið fram að það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar dómstólar sem og aðrir gera ráðstafanir sem varða börn.

Þegar dómari stendur frammi fyrir því að ítarleg úttekt sérfróðra manna segir að barninu sé fyrir bestu að vera áfram í sameiginlegri forsjá beggja foreldra, þá eru bönn fyrir því í íslenskum lögum að dómari geti dæmt á þann veg.

Af hverju þurfa íslendingar einir þjóða að banna dómurum að dæma í takt við barnasáttmálann og megin þema barnalaga sem er að dæma á þann veg sem barni er fyrir bestu?

Norðmenn hafa dæmt í sameiginlega forsjá síðan 1981, Finnar síðan 1983, Frakkar síðan 1988, Svíar síðan 1998 og Danir síðan 2007. Hvað þurfa Íslendingar að bíða lengi eftir þessari réttarbót?

Rökin fyrir heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá eru skýr, þar sem í dag liggur fyrir að þau réttindi sem sameiginlega forsjáin veitir umgengniforeldrinu halda ekki þar sem hægt er að “segja forsjánni upp” þegar á réttindin reynir, með höfðun forsjármáls. Fæst slík mál fara fyrir dómsstóla þar sem  lögheimilisforeldrið fær endurtekningarlítið fulla forsjá. Norðmenn segja: ..ósanngjarnt er að annað foreldrið fái eitt forsjána bara á þeim forsendum að það vilji ekki að hitt eigi hlutdeild í henni. Allar aðrar þjóðir hafa aðlagað sitt dómskerfið að þremur valmöguleikum við forsjá barns. Niðurstaða annara þjóða er nánast einsleit varðandi jákvæð réttaráhrif breytinganna þannig að málum hefur fækkað fyrir dómsstólum og sáttarvilji foreldra aukist.  Rökin sem hafa verið nefnd á móti breytingunni tengjast frávikamálum og þeim ótta að foreldrar sem vanrækja börnin, eiga við fíkniefnavanda að etja eða foreldrar sem beita börnin sín ofbeldi geti verið dæmd sameiginleg forsjá. Slíkur ótti ætti að vera ástæðulaus enda eigum við að treysta íslenska dómskerfinu til dæma hæfara foreldrinu forsjána í frávikamálum, enda er enginn valmöguleiki tekinn af dómurum með þessari breytingu.  Önnur rök eru þau að ekki skuli þvinga fram samstarf. Mikilvægt er að minna á að allir dómar í forsjár- og umgengnismálum eru í eðli sínu gegn vilja annars foreldrisins og flestir kalla þeir á einshverskonar samstarf. Allar aðrar þjóðir hafa farið þessa leið – síðast Danir þegar þeir ákváðu að dæma mætti m.a. umgengni við ömmu og afa gegn vilja lögheimilisforeldrisins. Þá tóku þeir hagsmuni barnsins fram yfir hagsmuni foreldranna, fylgja 3. gr. Barnasáttmálans.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband