Staða feðra á Íslandi í tilefni Feðradagsins

Félag um foreldrajafnrétti vill óska öllum feðrum og börnum þeirra til hamingju með feðradaginn. Feðradagurinn er nú haldinn í fjórða skipti á Íslandi þann 8. nóvember 2009 en löng hefð er fyrir feðradegi í öðrum löndum. Feðradagurinn var til að mynda haldinn fyrst 1919 í Bandríkjunum, 1931 í Svíþjóð og 1935 í Danmörku.

Félagið vill minna á bágborna stöðu íslenskra feðra í réttindum gagnvart hlutverki sínu. Hvergi í V-Evrópu er réttarstaða feðra verri en á Íslandi. Það er sérlega einkennilegt í ljósi þess að Ísland stendur meðal fremstu þjóða og er leiðandi í jafnréttismálum sem varða jafnan rétt kvenna gagnvart körlum. Í þeirri baráttu hefur hart verið lagt að íslenskum feðrum í sambúð að standa sig í hlutverki umönnunaraðila svo móðirin geti sinnt starfsframa sínum. Feður hafa almennt tekið þessu fagnandi. Þessi krafa á hins vegar aðeins við um þá feður sem búa með móður barna sinna. Aðrir feður sem ekki búa með barnsmóður sinni en vilja sinna föðurhlutverki sínu eru í verri málum. Jafnrétti hvað? Þá eru börnin allt í einu eign móður sinnar og feður hafa þar lítið hlutverk annað en að borga meðlag. Þannig getur faðirinn ekkert gert, þó hans vilji standi til þess að báðir foreldrar fari með sameiginlega forsjá og barnið verði í jafnri umgengni á tveimur heimilum, ef móðirin er því mótfallin. Hér er reginmunur á Íslandi og öðrum löndum. Í tilefni dagsins kyngeri ég umræðuna hér. Ekki er hægt að líta fram hjá því að réttarmunur foreldra sem ekki búa saman er kynbundinn og kynbundnari en til dæmis kynbundið ofbeldi. Um 92-95% skilnaðarbarna eiga lögheimili hjá móður og réttarstaða lögheimilisforeldris er yfirgnæfandi meiri en hins foreldrisins. Hin ríkisrekna jafnréttisbarátta þjóðarinnar sem kostar trúlega hundruði milljóna ár hvert, virðist láta þessar staðreyndir allar sem vind um eyru þjóta. Er ástæða þessa tómlætis sú að hið kynbundna ójafnrétti bitnar ekki á konum?

Hvergi í V-Evrópu er réttarstaða feðra verri en á Íslandi.

Baráttumál Félags um foreldrajafnrétti hafa að mestu verið lögfest í öllum þeim löndum sem Ísland vill bera sig saman við. Ísland situr eitt eftir og á töluvert langt í land. Í umfangsmikilli vinnu nefndar á vegum Félagsmálaráðuneytisins undir stjórn Ágústs Ólafs Ágústsson sem lauk störfum snemma á þessu ári kemur glögglega í ljós að Ísland sker sig algerlega úr hvað varðar réttindi barna til beggja foreldra á Norðurlöndum. Nefndin skilaði fjölmörgum tillögum til lagfæringa á barnalögum og óhætt er að segja að allar tillögur nefndarinnar eru í anda stefnu Félags um foreldrajafnrétti. Nefndin var nánast samhljóma í atkvæðagreiðslum um tillögur sínar en aðeins eitt atkvæði var á móti einni tillögu sem varla teljast mikil mótmæli í 11 manna nefnd með 12 tillögur sem kosið er um. Fáir nefndarmenn tóku ekki afstöðu til tillagnanna. Skýrsluna er að finna í heild sinni á síðu félagsins www.foreldrajafnretti.is.

Tvær nefndir eru í dag starfandi á vegum Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.

·         Nefnd til að endurskoða íslenska meðlagskerfið sem stýrt er af Guðnýju B. Eydal, prófessor í félagsráðgjöf, en búast má við viðamiklum breytingum á lögum varðandi framfærslu barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum.

·         Nefnd til að fara yfir reglur barnalaga um forsjá, búsetu og umgengni sem stýrt er af Hrefnu Friðriksdóttur, Lektor í sifja- og erfðarétti, en henni er gert að líta sérstaklega til mikils mismunar á lögum hérlendis og á hinum Norðurlöndunum og auk þess að líta til áður nefndra tillagna.

Félag um foreldrajafnrétti gerir þær kröfur til þessara nefnda að þær taki mið af bestu hagsmunum barnanna og jafnri réttarstöðu foreldra. Við fullyrðum að þessi tvö atriði fari saman og verði ekki skilin að og undir það tók Ágúst Ólafur á málþingi um fjölskyldumál á Íslandi undir yfirskriftinni „Höfum við hagsmuni barna að leiðarljósi?“ sem haldin var í október 2008.

Heimir Hilmarsson

Höfundur  er formaður Félags um foreldrajafnrétti

 


mbl.is Benda á rétt barna til feðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hefði ekki getað hugsað mér að þetta væri svona slæmt fyrr en þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir skömmu. Móðir getur auðveldlega neitað föður um forræði, án þess að rökstyðja það neitt frekar. Maður verður að láta svör eins og "af því bara" nægja, frábært!

Þetta er bara hneyksli og rökleysa, ekkert annað.

Haraldur (IP-tala skráð) 8.11.2009 kl. 16:26

2 identicon

Ég hef aldrei skilið hversvegna feður eru svona réttlausir. það þarf jú tvo til að búa til barn. Ég skil heldur ekki þetta misrétti sem börnin okkar búa við. Ég er svo heppin að eiga fjögur börn og er með sameiginlegt forræði með mínum barnsföður. þau dvelja yfirleitt viku og viku á hvoru heimili fyrir sig og það fara engar greiðslur okkar á milli við greiðum bara leikskólagjöld og skólagjöld til helminga og þetta er ekkert vesen. Hins vegar er kerfið svo skrítið að við þurftum að gera sérstaklega grein fyrir því að engar meðlagsgreiðslur færu fram þegar við skildum. Það er kerfið gerir ráð fyrir því að faðirinn borgi meðlag þó svo að forræðið sé sameiginlegt, og þau þurfa að eiga eitt lögheimili þó svo að þau eigi tvö heimili sem þau dvelja jafn mikið á.

Hversvegna er börnunum okkar mismunað svona, og hversvegna er réttur feðra svona lítill en þó síðast en ekki síst réttur barnanna okkar.
Ef ég myndi ráða fengju öll börn sömu upphæð barnabóta og borguðu sömu leikskólagjöld. Barnabæturnar væru bundanar börnunum okkar og færu beint í sjóð handa þeim sem hægt væri svo að taka út úr til að greiða fyrir leikskóla, nám og aðrar tómstundir, restin myndi safnast inn á reikning með sanngjörnum vöxtum og væri til taks þegar kæmi t.d. að fyrstu íbúðakaupum eða Háskóla námi.
Fyrir þau börn sem ekki hefðu kost á samvistum við báða foreldra sína, væru auðvitað einhver úrræði til í formi einhverskonar meðlags. En það þyrfti að vera raunhæft. Það gleymist ansi oft að feðurnir þurfa líka húsakjól, í sig og á.
Það er ekki víst að þetta væri svona ennþá ef það væru mæðurnar sem væru í stöðu feðranna, eða hvað ?

Jóhanna María Oddsdóttir (IP-tala skráð) 8.11.2009 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband