Sumir fordómar betri en aðrir?

Eru sumir fordómar betri en aðrir?

Er betra að vera með fordóma fyrir gagnkynhneigðum en samkynhneigðum?
Er betra að vera með fordóma fyrir karlmönnum en konum?
Er betra að vera með fordóma fyrir hægrisinnuðum en vinstri sinnuðum?
Er betra að vera með fordóma fyrir trúuðum en trúlausum?
Er betra að vera með fordóma fyrir karlmönnum í jakkafötum en borgarstjórum í drag?
Er betra að vera með fordóma fyrir þeim sem eiga peninga en þeim sem ekki eiga peninga?
Er betra að vera með fordóma fyrir Bandaríkjamönnum en Tælendingum?

Ég les út úr orðum Páls Óskars að hann vilji ala á fordómum gagnvart hvítum straight karlmönnum í jakkafötum sem eru hægrisinnaðir og eiga peninga. T.d. Davíð Oddsson. Er Davíð hafinn yfir alla gagnrýni vegna stöðu sinnar? Ég held ekki.

Ég sé ekki betur en að Páll Óskar noti ákveðna ímynd af öfgahægrisinnuðum Bandaríkjamönnum til að ala á fordómum gegn öllum hægrisinnuðum gagnkynhneigðum karlmönnum þegar hann segir: "Og stundum er þessi karlmaður með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni."

Ég trúi því ekki að við getum læknað fordóma með fordómum, það er eins og að svara ofbeldi með ofbeldi.

Því miður þá er það allt of algengt með þá sem segjast tala gegn fordómum að þeir horfa framhjá sínum eigin fordómum og jafnvel hvetja til fordóma gagnvart þeim sem eru annarrar skoðunar en þeir sjálfir í stjórnmálum, eða af öðru kyni, eða með aðra kynhneigð.

Um mannréttindi, í mínum huga á ekki að vera hægt að toga hugtakið mannréttindi fram og til baka í sérhagsmunaskyni.

Nú er talað um að það séu mannréttindi að "allir" eiga rétt á að eignast börn. Þegar betur er að gáð þá er átt við "allar konur" þegar "allir" er sagt, sem endurspeglast í lögum um nafnlaust gjafasæði til allra kvenna óháð aðstæðum þeirra. Það er mjög auðvelt að trúa því að þetta séu sjálfsögð mannréttindi þegar við hugsum eingöngu um konuna og ekkert annað. En hvað með réttindi barnsins til að þekkja uppruna sinn? Þau grunn mannréttindi hvers einstaklings að þekkja af hverjum hann er kominn, hverjir eru líffræðilegir foreldrar þess og ættingjar? Nei, það er talið í lagi að troða á réttindum barna (þau geta ekki svarað fyrir sig) til þess að mæta einhverjum súper mannréttindum kvenna.

Mannréttindi sem fela í sér rétt til þess að troða á réttindum annarra eiga ekki að vera til. En slík réttindi verða til í eigingjörnu fordómafullu samfélagi.


mbl.is Mikil umræða um orð Páls Óskars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Eins gott að fara strax að stofna þrýstihóp miðaldra, hvítra, hægrisinnaðra, kristinna karlmanna. Þessi hópur virðist vera orðinn minnhlutahópur sem hefur engin réttindi lengur... Góður pistill hjá þér.

Guðmundur St Ragnarsson, 8.8.2011 kl. 17:09

2 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Góð áminning til okkar allra að bregðast ekki við fordómum með fordómum. Líklega erum við öll haldin einhverjum fordómum þó við viljum ekki viðurkenna það.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 8.8.2011 kl. 18:50

3 identicon

Ég skil nú þessi ummæli Palla þannig að hann sé að benda á að gleðigangan sé fyrir alla og þar sé verið að fagna hverjum þeim árangri sem næst í lágmarks mannréttindum fyrir alla, sama hvernig þeir eru. Ég get ekki séð að hann sé að tala neikvætt um hvíta streit karlmenn í jakkafötunum.. þetta er ákveðin staðalímynd sem hann notar sem dæmi til að útskýra sitt mál. Það þekkja allir þessa staðalímynd, það þarf enginn að taka til sín orð Palla sem einhverja árás, hann er að benda á hvernig þjóðfélagið virðist vera, hvernig fólkið í landinu lítur á að sé best að vera. Ég get ekki séð að hann sé að tala um að hann sé með fordóma gagnvart akkúrat mönnum sem passa við þessa staðalímynd.. svo er auðvitað annað mál hvort einhver passi við ímyndina. Fólk á allt sama rétt á því að lifa mannsæmandi lífi, skiptir ekki máli hvernig það er á litinn, hvaða trú það aðhyllist, hver kynhneigðin er eða hvað sem er... fólk er fólk og á því rétt á lágmarks réttindum og virðingu. Af hverju er ég betri en aðrir af því að ég er hvít, streit, grannvaxin og hraust? Ég get ekki séð neitt sem réttlætir að ég ætti að sýna öðrum fyrirlitningu útaf því að þeir eru ekki eins og ég.. frekar ætti ég að leitast við að læra af viðkomandi það sem lífið hefur ekki kennt mér í þeirri stöðu sem ég er í en hinn hefur þekkingu á.

Rósa (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 00:18

4 identicon

Varðandi rétt til barneigna..... ég er sammála þar. Hver eru réttindi barnsins? Á hvaða kona sem er að hafa þann rétt að eignast barn þó að hún sé jafnvel ekki fær um að sinna barninu vegna líkamlegrar og / eða andlegrar fötlunar? Hvers á barnið að gjalda að lenda jafnvel í þeirri stöðu á unga aldri að þurfa að hugsa um móður sína í stað þess að móðirin hugsi um barnið sem ætti þó að vera eðlilegra þar sem foreldrið á að leiðbeina barninu til vits og þroska.

Rósa (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 00:23

5 Smámynd: Egill Óskarsson

„Ég les út úr orðum Páls Óskars að hann vilji ala á fordómum gagnvart hvítum straight karlmönnum í jakkafötum sem eru hægrisinnaðir og eiga peninga.“

Þá held ég að þú þurfir að lesa betur. Páll var að benda á hvaða hópur það er sem honum finnst verða fyrir minnstum fordómum alla jafna. Það er svo ekkert leyndarmál að innan þessa hóps sem hann tilgreinir teljast margir af þeim sem hafa gengið fram með fordóma í íslenskri umræðu, einn af þeim hafði t.a.m. kallað gleðigönguna ömurlega í blaðaviðtali daginn áður.

Í alvörunni. Lestu betur.

Egill Óskarsson, 9.8.2011 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband