Hvar er ábyrgð föður í svona máli?

Börn eiga rétt á báðum foreldrum samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en hvernig nýtist þessi réttur íslenskum börnum sem búa hjá óhæfu einstæðu foreldri sem fer eitt með forsjá barns?

Feður hafa verið sviptir forsjá hægri vinstri eftir skilnað og sambúðarslit. Feður sem eignast barn utan sambúðar hafa jafnvel aldrei orðið þess aðnjótandi að fara með forsjá barns. Þar af leiðir er allt of stór hluti íslenskra barna aðeins í forsjá annars foreldris síns.

Þegar þetta eina foreldri stendur sig engan vegin og barnavernd kemur í málið þá er forsjárlausa foreldrinu iðulega haldið úti í kuldanum og fær engar upplýsingar um málavexti. Forsjárlaust foreldri er ekki aðili að barnaverndarmáli barnsins og er því haldið frá öllum upplýsingum hvað varðar barnið.

Barnavernd reynir allt sem hægt er til að "laga" óhæfa foreldrið en lætur oftast hjá líða að hafa samband við forsjárlausa foreldrið enda erfitt að gera það án þess að brjóta trúnað við óhæfa foreldrið.

Við meðhöndlun barnaverndarmála þá virðast hagsmunir forsjárforeldris ráða ferðinni að langmestu leiti. Barn þarf að vera komið í lífshættu áður en hagsmunir barnsins fara að vega jafn þungt eða þyngra en hagsmunir forsjárforeldrisins.

Þessu þarf að breyta!

Allt frá upphafi barnaverndarmáls eiga hagsmunir barns að skipta öllu máli.

Til þess að hagsmunir barns verði teknir fram yfir hagsmuni forsjárforeldris þá þarf að vinna barnaverndarmál hratt og örugglega. Það að svipta foreldri forsjá um mitt ár 2011 sem var komið með allt í óefni snemma árs 2009 er algerlega óásættanlegt út frá hagsmunum barns.

Hitt foreldrið hvort sem það hefur forsjá eða ekki þarf að fá til sín allar upplýsingar um barnið og hagi þess sem geta leitt til þess að það foreldri komi barninu til hjálpar með til dæmis forsjármáli.

Forsjárlaust foreldri sem fer í forsjármál eftir ábendingu barnaverndar ætti frekar að fá gjafsókn en aðrir foreldrar til að tryggja það að barninu sé komið til aðstoðar óháð efnahag forsjárlausa foreldrisins.

Í þessu máli kemur vilji eldri systurinnar til að búa hjá föður mjög skýrt fram.

Hvað er eiginlega málið?


mbl.is Svipt forræði vegna vanrækslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Samkvæmt barnaverndarlögum bera feður ábyrgð á uppeldi og vellíðan barna sinna, hvort sem þeir hafa forræði eða ekki.  Vantar þá ekki einhverjar upplýsingar í þessa frétt?

Maður hugsar til þess að glæpsamlegt væri af föður við góða andlega heilsu að vitja ekki vellíðan barna sinna og benda barnaverndaryfirvöldum á ástandið.

Jonsi (IP-tala skráð) 8.7.2011 kl. 12:13

2 Smámynd: Heimir Hilmarsson

Feður bera ábyrgð hvort sem þeir fara með forsjá eða ekki.

Vandamálið er að feður fá ekki upplýsingar og hafa þess vegna ekki rétt til þess að standa undir þeirri ábyrgð sem þeim er ætlað.

Barnaverndarlög vernda hagsmuni forsjárforeldris mun meira en hagsmuni barns og það tel ég ástæður þess að þessum upplýsingum er haldið frá forsjárlausum.

Til skýringa þá er það ruglingslegt að tala um forsjárlausa því hæfir foreldrar eru sviptir forsjá samkvæmt barnalögum alveg hægri vinstri þannig að langflestir forsjárlausir foreldrar eru hæfir foreldrar.

Óhæfir foreldrar eru sviptir forsjá út frá barnaverndarlögum og það er mjög fátítt.

Þó er það þannig að þeir sem hafa verið sviptir forsjá af ástæðu samkvæmt barnaverndarlögum hafa meiri réttindi en þeir foreldrar sem hafa verið sviptir forsjá af ástæðulausu samkvæmt barnalögum.

Heimir Hilmarsson, 8.7.2011 kl. 12:58

3 Smámynd: corvus corax

Ég hef lengi haldið því fram að svokallaðar barnaverndarnefndir hafa nánast aldrei hagsmuni barna í fyrirrúmi, þar ráða oftast ferðinni einhverjir annarlegir hagsmunir eins og tengsl fulltrúa þessara nefnda við einhvern sem telur sig málsaðila þótt ekki sé þar um foreldra að ræða. Það geta verið ömmur, afar, frænkur eða annað tengslafólk og þekkir einhvern eða á vin sem þekkir vin sem þekkir einhvern barnaverndarfulltrúa. Það er augljóst af svo mörgum málum sem þessar, margar hverjar óhæfu, barnaverndarnefndir hafa hlutast til um að oftar en ekki ráða einhverjir allt aðrir hagsmunir en viðkomandi barns eða barna. Þessu þarf að breyta!

corvus corax, 8.7.2011 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband