Réttarbætur í frumvarpi

Frumvarp um breytingar á ákvæðum barnalaga
um forsjá, búsetu og umgengni

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið kynnir nú á heimasíðu sinni frumvarp til breytinga á barnalögum um forsjá, búsetu og umgengni.

Mikil vinna hefur verið lögð í gerð þessa vandaða frumvarps og Félag um foreldrajafnrétti hvetur áhugasama til að skoða frumvarpið vel.

Réttur barnsins stór eykst samkvæmt frumvarpi þessu til dæmis þar sem tekið er sérstaklega á rétti barns til að tjá sig í öllum málum sem það varðar.

Dómarar fá heimild til að dæma í sameiginlega forsjá auk þess sem hægt verður að höfða mál um lögheimilisflutning án þess að til forsjármáls komi.

Gerð verður sú krafa á foreldra að mæta í sáttameðferð áður en hægt verði að höfða máli eða krefjast úrskurðar í forsjár-, lögheimilis-, umgengnis- og dagsektarmálum.

Í fljótu bragði eru þetta mikilvægustu atriði frumvarpsins, en frumvarpið hefur að geyma margar aðrar réttarfarsbætur til handa börnum sem eiga foreldra á tveimur heimilum.

Heimir Hilmarsson
formaður Félags um foreldrajafnrétti

Heimasíða Félags um foreldrajafnrétti

 
mbl.is Miklar breytingar á barnalögum í bígerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Gíslason

Heimir þetta er allt gott og blessað og miklar réttarfarsbætur og mikilvægur áfangi fyrir baráttu félagsins. 

En það eru ekki síður hortittirnir í þessu sem valda mér vonbrigðum.

a) Á sama tíma og hægt er að dæma í sameiginlega forsjá þá er innihald sameiginlegrar forsjár skert með því að ákveða að allar meiriháttar ákvarðanir eru á hendi lögheimilis foreldrisins en ekki sameiginlega hjá báðum foreldrum með sameiginlega forsjá.

b) Það er ekki lagt til tvöfalt lögheimili þar sem réttur beggja heimila er jafnaður, t.d. þegar barn býr jafnt hjá báðum. 

c) Lögheimilisforeldri getur ákveðið einhliða að flytja hvert á land sem er innanlands og þarf bara að upplýsa hitt forsjárforeldrið um það, enda er slíkt í anda þess að lögheimilisforeldri taki allar meiriháttar ákvarðanir.

Í frumvarpinu er verið að leggja til lögfestingu á dómaraheimidlinni til að dæma í sameiginlega forsjá sem er gott og blessað, en það veikir sameiginlega forsjá þegar það er ákveðið að allar meiriháttar ákvarðanir eru lögheimilisforeldrisins.

Þegar ný barnalög voru samþykkt árið 2003 þá voru ýmsar mikilvægar réttarbætur þar rétt eins og í þessu frumvarpi, en lögin 2003 voru þegar úrelt við birtingu vegna þess sem vantaði í þau og ég tel það sama með þetta frumvarp. 

Ég geri ráð fyrir að niðurstaða nefndarinnar sé málamiðlun á milli þeirra sjónarmiða sem hún hlustaði á við gerð frumvarpsins.  Niðurstaða nefndarinnar í dag er önnur en hún hefði orðið t.d. 2003 og er það að þakka að til er félag eins og Foreldrajafnrétti sem hefur  þessum ýtt málefnum áfram af miklum dugnaði.

Gísli Gíslason, 13.1.2010 kl. 08:54

2 Smámynd: Heimir Hilmarsson

Þegar frumvarpið er betur skoðað þá er margt að finna þar sem er vægast sagt undarlegt.

Til að mynda virðast réttindi barna til foreldra sinna og ættartengsla sem mikil áhersla er lögð á í Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna vera minnkuð verulega samkvæmt frumvarpi þessu.

Réttindi stjúpforeldra til að fara með forsjá með sama hætti og foreldra eru undarleg.

Komi til skilnaðar milli foreldris og stjúpforeldris þá getur stjúpforeldrið farið eitt með forsjá eftir skilnað. Stjúpforeldri hefur sama rétt og foreldri barnsins til að fara eitt með forsjá og úr því verður skorið með forsjármáli.

Fari svo þetta fyrrverandi stjúpforeldri sem allt í einu er orðið einstætt foreldri í aðra sambúð þá getur nýji sambúðaraðilinn fengið forsjá og barnið þannig komið í forsjá tveggja aðila sem hafa engin ættartengsl við barnið.

Þetta er arfavitlaust og í andstöðu við margar greinar Barnasáttmálans.

Þetta minnir mig nokkuð á það sem mest er gagnrýnt í störfum barnaverndar þar sem börn eru sett til vandalausra í stað þess að reyna fyrst að koma þeim til ættingja í fóstur geti þau ekki verið hjá foreldrum.

Siðrof í íslensku samfélagi er greinilega á fleiri stöðum en í fjármálaheiminum.

Heimir Hilmarsson, 20.1.2010 kl. 09:20

3 Smámynd: Gísli Gíslason

Þetta þýðir einfaldlega að félag eins og Félag um foreldrajafnrétti hefur áfram mikið hlutverk, enda mikið verk óunnið til að tryggja rétt barna til beggja foreldra.

Gísli Gíslason, 27.1.2010 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband