Hagstofa Íslands óhæf!

Rangar upplýsingar eru á margan hátt verri en engar upplýsingar. Þó með þeirri undantekningu að ef rangar upplýsingar eru skoðaðar með gagnrýnum augum og brugðist er við því sem aflaga fer.

Hagstofa Íslands hefur gefið ranga mynd af afkomu íslenskra heimila um langan tíma og þrátt fyrir vitneskju stofnunarinnar um þá kerfisvillu sem til staðar er, þá leitast stofnunin ekki við að lagfæra villuna.

Í skýrslu nefndar um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum[1] kemur fram að þær fjölskyldugerðir sem verst eru settar eru einstæðir foreldrar sem deila ekki lögheimili með barni. Þessir foreldrar eru skráðir einhleypir barnlausir einstaklingar í rannsóknum Hagstofu Íslands ef undan er skilin sú rannsókn sem Hagstofan gerði fyrir þessa skýrslu.

Þessar verst stöddu fjölskyldur íslensks samfélags eru þær fjölskyldur sem bera ábyrgð á að sinna börnum sínum með umgengni án alls stuðnings frá ríkinu.

Hagstofustjóri, Ólafur Hjálmarsson, segir að það þurfi að kryfja til mergjar með greinargóðum hagtölum aðrar tegundir heimila en einstæðra umgengnisforeldra, áður en réttlætanlegt verður að nota peninga í þennan sennilega fátækasta hóp Íslands. Orðrétt segir hagstofustjóri í svari til Umboðsmanns Alþingis:

"Það er ekki á dagskrá Hagstofunnar í dag að gera afmarkaða rannsókn á einstæðum meðlagsgreiðendum, nema sérstakt tilefni krefðist þess. Bæði kostar það talsverða fjármuni að framkvæma slíka rannsókn, auk þess liggja önnur brýnni verkefni fyrir og aðrar tegundir heimila bíða þess að fjárhagur þeirra sé krufinn til mergjar með greinargóðum hagtölum."

Vísvitandi er þannig Hagstofa Íslands að birta villandi tölur um afkomu heimila ár eftir ár.

Ein villan sem Hagstofan setur fram er að þegar talað er um ráðstöfunartekjur, þá er meðlag talið til ráðstöfunartekna hjá meðlagsgreiðanda en ekki hjá meðlagsþega. Það er jafn rangt og að telja útborguð laun til ráðstöfunartekna hjá launagreiðanda en ekki hjá launþega.[2]

Þannig mælist umgengnisforeldri sem greiðir meðlag með þremur börnum við lágtekjumörk þegar ráðstöfunartekjur þess eru 80.910 kr. Engin fjölskyldugerð getur mætt lágmarksframfærslu með svo lágar ráðstöfunartekjur, hvað þá þriggja barna einstætt foreldri. Til samanburður þá mælist einstætt þriggja barna lögheimilisforeldri við lágtekjumörk þegar ráðstöfunartekjur þess heimilis eru 364.530 kr.

Það segir sig alveg sjálft að þessi framsetning Hagstofu Íslands er ekki til þess fallin að hjálpa bágstöddum fjölskyldum heldur mun frekar til þess að ná fram pólitískt þóknanlegum niðurstöðum.

Réttast væri að banna Hagstofu Íslands að gefa út meira efni um afkomu fjölskyldna þangað til forsendur hafa verið leiðréttar. Jafnframt ætti að taka úr birtingu allar þær röngu upplýsingar sem Hagstofan hefur haldið á lofti um langt árabil.

 


[2] Umsögn Heimis Hilmarssonar við þingsályktunartillögu, mál nr. 152. http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=141&dbnr=564


mbl.is Lágtekjufólk á ekki fyrir útgjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Athyglisverðir punktar sem þú kemur með þarna Heimir.

Þetta þarf að leiðrétta.

Landfari, 6.12.2012 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband